Um batagjafir

Þegar þú kaupir batagjöf ertu að styrkja meðferðarstarf SÁÁ og stuðla að því að fólk með fíknsjúkdóm geti náð bata og orðið virkir þátttakendur í samfélaginu. Þú færð gjafabréf sent í tölvupósti til að prenta út og gefa – en gjöfin sjálf er send milliliðalaust inn í meðferðarstarfið. Þú ert því að kaupa raunverulega gjöf sem nýtist skjólstæðingum okkar beint!

Batagjafir eru frábær leið til að gleðja ástvini eða fagna áfangasigrum á batagöngunni og styrkja um leið mikilvægt málefni. Þær eru til í mörgum verðflokkum og henta við öll tækifæri; edrúafmæli, afmæli, brúðkaup, jól, útskriftir, fermingar, mæðra- og feðradag, bónda- og konudag eða valentínusardag!

Einnig er hægt að kaupa edrúafmæliskort til að fagna áfangasigrum og styrkja um leið meðferðarstarf SÁÁ. Edrúafmæliskort er mynd með þínum edrútíma sem hægt er að deila á samfélagsmiðlum með einum smelli!

Fíknsjúkdómurinn er alvarlegur og dýr. Hann er algengasti og alvarlegasti sjúkdómur ungs fólks á Íslandi – í engum öðrum hópum verða jafnmörg ótímabær dauðsföll. Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu SÁÁ hefur aldrei verið meiri. Yfir 500 manns eru á biðlista eftir meðferð. Það er lengsti biðlisti í 40 ára sögu SÁÁ.

SÁÁ sinnir fyrst og fremst þeim geðheilbrigðisvanda sem fíknsjúkdómurinn veldur og snertir einstaklinga, börn þeirra, fjölskyldur og samfélagið allt. SÁÁ býður upp á fagþekkingu, áratuga reynslu og fyrsta flokks aðbúnað. Allur húsakostur samtakanna er byggður fyrir söfnunarfé og er sérhannaður fyrir starfsemina. Fá dæmi eru um almannaheillasamtök sem njóta velvildar og stuðnings líkt og SÁÁ gerir. Þjónustan er heildstæð og samfelld og skapar mikil verðmæti í samfélaginu.

SÁÁ hefur fært þúsundum betra líf og bata frá fíknsjúkdómnum.

Takk fyrir stuðninginn!